Bolton vann öruggan 4:0-heimasigur á AFC Wimbledon í ensku C-deildinni í fótbolta í dag.
Selfyssingurinn Jón Daði Böðvarsson átti afar góðan leik fyrir Bolton og skoraði fyrsta markið sitt fyrir félagið á 36. mínútu er hann kom Bolton yfir með skallamarki og var staðan í hálfleik 1:0.
Jón Daði var ekki hættur því hann lagði upp þriðja mark Bolton á 67. mínútu og fór svo af velli fjórum mínútum síðar. Jón Daði kom til Bolton frá Millwall í janúar.
Bolton hefur verið á góðri siglingu síðustu vikur og er liðið í 10. sæti deildarinnar með 48 stig, sjö stigum frá sæti í umspili um þátttökurétt í B-deildinni á næstu leiktíð.