West Ham United og Newcastle United skildu jöfn, 1:1, þegar þau öttu kappi í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla í hádeginu í dag.
Eftir rúmlega hálftíma leik komust heimamenn í West Ham í forystu. Aaron Cresswell átti þá góða sendingu úr aukaspyrnu, beint á Craig Dawson sem skoraði með kraftmiklum skalla.
Undir lok fyrri hálfleiks náði Joseph Willock að smeygja sér fram fyrir Dawson í kjölfar darraðadans í vítateig Hamranna og, slæmdi fætinum í boltann þaðan sem hann fór í fjærstöngina og þaðan, með naumindum, inn fyrir marklínuna.
Staðan því 1:1 í hálfleik og reyndust það sömuleiðis lokatölur.
Úrslitin þýða að West Ham mistókst að fara upp í fjórða sæti deildarinnar á meðan Newcastle heldur áfram að slíta sig og jafnt og þétt frá botnliðunum, enda nú fimm stigum frá fallsæti.