United lagði Leeds í fjörugum leik

Paul Pogba ogr Mateusz Klich eigast við í Leeds í …
Paul Pogba ogr Mateusz Klich eigast við í Leeds í dag. AFP

Manchester United vann góðan 4:2-útisigur á Leeds United þegar liðin mættust í opnum og skemmtilegum leik í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla í dag.

Leeds fékk fyrsta góða færi leiksins á fimmtu mínútu þegar Jack Harrison fékk frábæra sendingu inn á vítateig frá Mateusz Klich en skot hans á lofti fór naumlega framhjá markinu.

Því næst fékk Cristiano Ronaldo sannkallað dauðafæri á 26. mínútu þegar Illan Meslier varði skot hans af örstuttu færi eftir laglegan undirbúning Paul Pogba.

Á 34. mínútu náðu gestirnir í Man. United svo forystunni. Harry Maguire skallaði þá hornspyrnu Luke Shaw frá hægri af krafti í netið.

Á fimmtu mínútu uppbótartíma í fyrri hálfleik tvöfaldaði Bruno Fernandes forystuna. Victor Lindelöf átti þá góðan sprett fram, lagði boltann til hliðar á Jadon Sancho sem gaf hárnákvæma sendingu á kollinn á Fernandes sem skoraði með skalla af stuttu færi.

Staðan því 2:0, Man. United í vil, í leikhléi.

Leeds byrjaði síðari hálfleikinn af gífurlegum krafti og minnkaði muninn á 53. mínútu. Þar var að verki Rodrigo sem þrumaði boltanum yfir David De Gea langt utan af vinstri kanti og í hliðarnetið innanvert.

Hvort um fyrirgjöf eða útsjónarsamt skot Rodrigo hafi verið að ræða er ekki gott að segja til um en það mátti einu gilda þar sem markið var stórglæsilegt.

Innan við mínútu síðar var Leeds skyndilega búið að jafna metin í 2:2.

Adam Forshaw vann þá boltann af Fernandes í grennd við vítateig Man. United, kom boltanum á Daniel James sem fór framhjá Aaron Wan-Bissaka og gaf boltann þvert fyrir markið þar sem Raphinha, sem hafði komið inn á sem varamaður í hálfleik, var mættur og tæklaði boltann í netið af örstuttu færi.

Landi hans og annar varamaður, Fred, kom inn á á 67. mínútu og aðeins þremur mínútum síðar var hann búinn að koma Man. United yfir á ný. Eftir laglega skyndisókn lagði Sancho boltann til hliðar á Fred sem þrumaði boltanum upp í nærhornið.

Skömmu síðar, á 72. mínútu, fékk varamaðurinn Anthony Elanga dauðafæri, enn á ný eftir undirbúning Sancho, en skot hans fór beint á Meslier.

Honum brást hins vegar ekki bogalistin á 88. mínútu. Fernandes fór þá afskaplega illa með Pascal Struijk í vörn Leeds, lagði boltann inn fyrir á Elanga sem lagði boltann framhjá Meslier og í netið.

Staðan orðin 4:2 og reyndust það lokatölur.

Með sigrinum styrkir Man. United stöðu sína í fjórða sæti deildarinnar á meðan Leeds er ennþá í neðri hlutanum, fimm stigum fyrir ofan fallsæti.

Leeds 2:4 Man. Utd opna loka
90. mín. Junior Firpo (Leeds) fær gult spjald +2 Fer hressilega í Elanga, náði að vísu boltanum í leiðinni.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert