Christian Eriksen tók annað skref í endurkomu sinni á knattspyrnuvöllinn í dag og lagði upp tvö mörk í æfingaleik með Brentford gegn skoska meistaraliðinu Rangers.
Liðin skildu jöfn, 2:2, á æfingasvæði Rangers rétt utan við Glasgow og Eriksen lék í tæpar 80 mínútur.
Thomas Frank knattspyrnustjóri Brentford sagði fyrir helgina að Eriksen væri ekki tilbúinn til að spila gegn Arsenal á laugardaginn en hann reiknaði með honum gegn Newcastle í úrvalsdeildinni næsta laugardag.
Eriksen lék þarna sinn annan æfingaleik með Brentford en hann lagði upp eitt mark í þeim fyrsta á dögunum. Hann spilaði síðast alvöruleik 12. júní en þá var hann endurlífgaður á Parken í Kaupmannahöfn eftir að hafa farið í hjartastopp í leik Dana og Finna í úrslitakeppni EM.