Samtök atvinnuknattspyrnumanna hafa á ný kallað eftir því að heimilt verði að skipta inn á leikmanni til bráðabirgða í þeim tilfellum sem leikmenn verða fyrir höfuðhöggum í leik.
Þetta kemur í kjölfarið á atviki í leik Leeds og Manchester United í ensku úrvalsdeildinni á Elland Road í gær. Snemma leiks fékk Robin Koch, leikmaður Leeds, þungt höfuðhögg eftir árekstur við Scott McTominay, leikmann United, og var alblóðugur á höfuðinu.
Hann hélt samt áfram leik eftir að bundið var um höfuð hans en þurfti síðan að fara af velli fljótlega eftir það.
„Meiðsli Robins Kochs hjá Leeds sýna enn og aftur að núverandi ráðstafanir varðandi höfuðhögg eru ekki fullnægjandi til að tryggja öryggi leikmanna," segir m.a. í yfirlýsingu sem samtökin sendu frá sér í dag.
„Tímabundin innáskipting vegna höfuðhöggs myndi gefa sjúkrateymi liðanna nægan tíma til að meta stöðuna, hún myndi sjá til þess að liðin stæðu jafnt að vígi, og þar með væri ekki sama pressan á sjúkrateyminu að taka strax ákvörðun um hvort viðkomandi leikmaður geti haldið áfram leik," segir ennfremur í yfirlýsingunni.
Marcelo Bielsa, knattspyrnustjóri Leeds, sagði eftir leikinn að það hefði verið skurðurinn á enni Kochs, frekar en áhrif af högginu, sem hefði leitt til þess að hann hefði þurft að fara af velli.