Níu handteknir á Elland Road

Anthony Elanga liggur á vellinum eftir að áhorfandi kastaði peningi …
Anthony Elanga liggur á vellinum eftir að áhorfandi kastaði peningi í höfuð hans. AFP

Lögregluyfirvöld í Leeds skýrðu frá því í dag að níu áhorfendur á leik Leeds og Manchester United í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í gær hefðu verið handteknir.

Anthony Elanga, hinn 19 ára gamli leikmaður Manchester United, varð fyrir því að kastað var í höfuð hans peningi úr stúkunni þegar United fagnaði marki Freds, sem kom liðinu í 3:2 á 70. mínútu leiksins. Elanga skoraði sjálfur undir lokin og innsiglaði 4:2 sigurinn.

Auk þess var mikið um hnútukast á milli stuðningsmanna félaganna sem sungu níðsöngva hvorir um aðra en þessir gamalkunnu fjendur höfðu ekki mæst í leik frammi fyrir áhorfendum á Elland Road frá árinu 2003.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert