Marcelo Bielsa knattspyrnustjóri Leeds United segir að hann og læknateymi liðsins hafi brugðist að öllu leyti rétt við þegar Robin Koch var sendur aftur inn á völlinn gegn Manchester United á sunnudaginn eftir að hafa fengið högg á höfuðið.
Koch lenti í árekstri við Scott McTominay snemma leiks og talsvert blæddi úr enni hans. Eftir stutta dvöl utan vallar kom Koch aftur til leiks með bundið um höfuðið. Nokkrum mínútum síðar settist hann hinsvegar á völlinn og var síðan skipt af velli.
Bielsa og starfslið Leeds hafa verið gagnrýnd talsvert fyrir að senda Koch aftur inn á völlinn í kjölfar höfuðhöggs en Bielsa varði þá ákvörðun á fréttamannafundi í dag.
„Hann hélt áfram leik eftir að læknarnir mátu stöðuna þannig að þetta væri aðeins blæðandi sár sem um væri að ræða en ekkert annað. Hann gæti því haldið áfram. Eftir að hann hélt áfram að spila var hann á allan hátt eðlilegur. Ég fylgdist grannt með og það var engin ástæða til að ætla að þetta hefði einhverjar afleiðingar. En eftir nokkrar mínútur sest hann niður og þ.á kemur í ljós að hann er með einkenni sem ekki voru til staðar eftir áreksturinn. Þá ákváðum við að skipta honum af velli. Við gerðum allt samkvæmt reglum," sagði Bielsa.
Kallað hefur verið eftir því í kjölfar atviksins að reglur verði settar um að leyft verði að skipta varamanni inn á tímabundið þegar leikmaður fær höfuðhögg, þannig að lið hans sé ekki manni færri á meðan verið er að meta stöðuna.