Úrúgvæski framherjinn Edinson Cavani er ekki í leikmannahópi Manchester United sem flýgur nú síðdegis til Madríd vegna leiksins gegn Atlético Madríd í Meistaradeild Evrópu sem þar fer fram annað kvöld.
Ralf Rangnick knattspyrnustjóri United skýrði frá því á heimasíðu félagsins í dag að Cavani hefði ekki getað æft undanfarnar tvær vikur vegna nárameiðsla og gæti fyrir vikið ekki hlaupið af fullum krafti.
Nemanja Matic er kominn inn í hópinn á ný eftir meiðsli en hann var á varamannabekknum gegn Leeds á sunnudaginn og þá hefur Phil Jones verið bætt við meistaradeildarhóp United fyrir útsláttarkeppnina.