Enska knattspyrnusambandið hefur sektað Manchester United um 20 þúsund pund vegna viðbragða leikmanna í leik liðsins við Brighton í ensku úrvalsdeildinni í síðustu viku.
Leikmenn United hópuðust að Peter Bankes, dómara leiksins, þegar hann gaf Lewis Dunk aðeins gult spjald fyrir brot þegar Anthony Elanga var að sleppa einn í gegn.
Eftir skoðun á myndbandsskjá breytti Bankes um skoðun og rak Dunk af velli, en ekki áður en leikmenn United hópuðust að honum og mótmæltu harðlega. Bruno Fernandes fékk gult spjald fyrir sinn þátt í mótmælunum.