Paul Scholes, sem lék með enska knattspyrnuliðinu Manchester United allan sinn feril, segir að liðið standi Liverpool svo langt að baki í dag að einungis einn leikmaður United kæmist í byrjunarlið erkifjendanna.
Scholes var spurður um stöðu síns gamla félags í Daily Mail og sagði að Paul Pogba gæti komist í lið Liverpool, ef hann væri í sínu allra besta formi.
Scholes kvaðst vissulega hafa oft gagnrýnt Pogba harkalega en köflótt frammistaða hans endurspegli lið United um þessar mundir. „Enginn leikmaður liðsins sýnir stöðugleika og þeir sem stjórna félaginu sýna ekki stöðugleika. Ég hef gagnrýnt Paul mjög en sá sem mætir Manchester United vill miklu frekar spila gegn Fred og McTominay en honum. Maður veit aldrei hvað maður fær hjá Paul en þegar hann spilar af eðlilegri getu er hann frábær," sagði Paul Scholes.
„En þegar hann spilar ekki af eðlilegri getu, þá er United í vandræðum gegn liðum eins og Liverpool og Manchester City. Hvernig ætlar United að fylla skarð hans á næsta tímabili," sagði Scholes en samningur Frakkans rennur út eftir þetta tímabil.