„Kannski er ég ekki góður stjóri“

Antonio Conte átti erfitt með að leyna vonbrigðum sínum eftir …
Antonio Conte átti erfitt með að leyna vonbrigðum sínum eftir úrslit kvöldsins. AFP

„Við erum að leggja mikið á okkur til þess að bæta leik liðsins en kannski erum við ekki að gera nóg,“ sagði Antonio Conte, knattspyrnustjóri Tottenham, í samtali við BBC, eftir 0:1-tap liðsins gegn Burnley í ensku úrvalsdeildinni á Turf Moor í kvöld.

Ben Mee skoraði sigurmark Burnley á 71. mínútu með laglegum skalla en þetta var fjórða tap Tottenham í síðustu fimm leikjum liðsins.

„Þetta eru virkilega svekkjandi úrslit og í fyrsta sinn á mínum ferli hef ég tapað fjórum leikjum af síðustu fimm leikjum mínum. Kannski er ég ekki góður stjóri.

Ég var ráðinn hingað til þess að snúa gengi liðsins við en ég get ekki lokað augunum fyrir því sem er að gerast. Ég hata að tapa og úrslit síðustu leikja eru óásættanleg. 

Ég vil sjá liðið taka skref fram á við og það kemur ekki til greina að enda í sama sæti og við vorum í þegar ég  tók við liðinu,“ bætti Conte við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert