Liverpool vann afar öruggan 6:0-heimasigur á Leeds í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld. Liverpool er nú með 60 stig, aðeins þremur stigum minna en topplið Manchester City. Leeds er áfram í 15. sæti með 23 stig.
Leeds byrjaði ágætlega og Daniel James var nálægt því að skora snemma leiks eftir mistök hjá Alisson í marki Liverpool en Joel Matip kom markverðinum sínum til bjargar.
Hinum megin voru sóknarmenn Liverpool í stuði og fyrsta markið kom á 15. mínútu. Andy Robertson átti þá fyrirgjöf og boltinn fór í höndina á Stuart Dallas og víti dæmt. Mo Salah fór á punktinn og skoraði af öryggi og við það færðist meira öryggi í leik Liverpool-manna.
Kortéri síðar var staðan orðin 2:0 þegar áðurnefndur Matip skoraði af öryggi eftir sendingu frá Mo Salah og fimm mínútum síðar fékk Liverpool annað víti þegar Luke Ayling tók Sadio Mané niður. Salah fór aftur á punktinn og skoraði sitt annað mark og þriðja mark Liverpool og enn tíu mínútur eftir af fyrri hálfleik.
Mörkin urðu þó ekki í fleiri fyrir hlé. Liverpool hélt áfram að sækja í seinni hálfleik og fékk nokkur fín færi til að bæta við fjórða markinu. Það kom loks á 80. mínútu þegar Sadio Mané kláraði af öryggi eftir sendingu frá varamanninum Jordan Henderson.
Liverpool var ekki hætt því Mané bætti við sínu öðru marki á lokamínútunni og Virgil van Dijk gerði sjötta markið í uppbótartíma með skalla eftir hornspyrnu og þar við sat.