Óvæntur sigur Burnley á Tottenham

Leikmenn Burnley fagna sigurmarkinu.
Leikmenn Burnley fagna sigurmarkinu. AFP

Burnley vann óvæntan 1:0-heimasigur á Tottenham í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld. Burnley er nú aðeins tveimur stigum frá öruggu sæti í deildinni og með leiki til góða á flest liðin fyrir ofan sig.

Tottenham komst nálægt því að skora snemma í seinni hálfleik en Harry Kane skallaði í slánna. Það voru hinsvegar heimamenn sem skoruðu fyrsta markið því varnarmaðurinn Ben Mee kom boltanum í netið á 71. mínútu eftir aukaspyrnu frá Josh Brownhill. Reyndist það sigurmarkið.

Crystal Palace vann góðan 4:1-útisigur á Watford. Palace byrjaði betur og komst yfir á 15. mínútu þegar Jean-Philippe Mateta skoraði. Aðeins þremur mínútum síðar jafnaði Moussa Sissoko fyrir Watford.

Wilfried Zaha gerði tvö mörk.
Wilfried Zaha gerði tvö mörk. AFP

Palace komst hinsvegar aftur yfir á 42. mínútu þegar Conor Gallagher, lánsmaður frá Chelsea, skoraði eftir undirbúning frá Tyrick Mitchell og var staðan í hálfleik 2:1, Crystal Palace í vil.

Gestirnir frá Palace gulltryggðu svo sigurinn í lokin. Wilfried Zaha skoraði þriðja markið á 85. mínútu og svo fjórða markið á lokamínútunni og þar við sat. Palace er í 11. sæti deildarinnar með 29 stig og Watford í 19. sæti með 18 stig, fjórum stigum frá öruggu sæti í deildinni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert