Brasilíski knattspyrnumaðurinn Fred sem leikur með Manchester United furðar sig á stöðu mála hjá félaginu og er ekki hrifinn af því að núverandi knattspyrnustjóri sé aðeins ráðinn til bráðabirgða.
Ralf Rangnick tók við liðinu í vetur þegar Ole Gunnar Solskjær var sagt upp störfum en hann stígur síðan til hliðar eftir tímabilið og verður tæknilegur ráðgjafi hjá félaginu.
„Þetta er dálítið skrýtið. Ég veit að í fótbolta er mikilvægt að ná góðum úrslitum eins fljótt og mögulegt er en það er líka nauðsynlegt að vera með langtímaplan. Ég tel að það sé slæmt fyrir okkur að vera ekki með fastráðinn stjóra því sem stendur er bara unnið að skammtímamarkmiðum. Við vitum ekkert hvað tekur við eftir þetta tímabil," sagði Fred við brasilísku sjónvarpsstöðina TNT Sports.
United mætir Atlético Madrid í Meistaradeildinni í kvöld og liðið er ekki talið sigurstranglegt í keppninni en Fred sagði ekkert útilokað í þeim efnum.
„Ég veit að við höfum ekki spilað samkvæmt getu en það er fullt af frábærum leikmönnum í hópnum. Það væri ekki svo brjálæðislegt ef við ynnum keppnina, en við verðum að leggja allt í sölurnar því það er langt frá því að við séum eitt af þeim liðum sem eru talin líklegir sigurvegarar," sagði Fred.