Wilshere kemur aftur til Arsenal

Jack Wilshere fyrir miðju með Mikael Anderson sér á hægri …
Jack Wilshere fyrir miðju með Mikael Anderson sér á hægri hönd á æfingu hjá AGF en koma hans þangað hefur vakið mikla athygli. AFP

Mikel Arteta knattspyrnustjóri Arsenal segir að Jack Wilshere eigi eftir að koma aftur í raðir Lundúnafélagsins.

Wilshere ólst upp hjá Arsenal og lék þar í tíu ár en er nú kominn í dönsku úrvalsdeildina þar sem hann mun spila sinn fyrsta leik með AGF um næstu helgi. Hann fékk að æfa hjá Arsenal á meðan hann var samningslaus en Wilshere spilaði með Bournemouth á síðasta tímabili.

„Það er hundrað prósent öruggt. Honum munu standa allar dyr opnar hjá félaginu og honum verður fundið hlutverk sem hentar. Það mun gerast á mjög eðlilegan hátt," sagði Arteta við The Guardian en hann sér Wilshere fyrir sér sem þjálfara þegar ferli hans lýkur.

Wilshere aðstoðaði við þjálfun U23 ára liðs Arsenal í vetur á meðan hann æfði hjá félaginu. „Vonandi náðum við að hjálpa honum dálítið því hann var ekki viss um hvort hann ætti að snúa sér strax að þjálfun eða halda áfram að spila," sagði Arteta.

Wilshere er þrítugur, komst kornungur í enska landsliðið og lék 36 leiki með því til ársins 2016 en eftir það hefur hann ekki náð sér fyllilega á strik. Nú er hann kominn á nýjar slóðir sem samherji íslensku landsliðsmannanna Jóns Dags Þorsteinssonar og Mikael Andersons hjá AGF í Árósum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert