Leeds United tapaði sínum fjórða leik í röð í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag er liðið lá á heimavelli gegn Tottenham 0:4. The Athletic greinir frá að þolinmæði stjórnarformanna Leeds á argentínska knattspyrnustjóranum Marcelo Bielsa sé á þrotum.
Leeds hefur tapað leikjunum fjórum með markatölunni 17:2 og hefur liðið fengið 60 mörk á sig í deildinni á leiktíðinni, flest allra. Liðið er aðeins þremur stigum fyrir ofan fallsæti þegar tólf leikir eru eftir.
Bielsa er á sínu fjórða tímabili með Leeds en hann hefur náð eftirtektarverðum árangri með liðinu. Hann stýrði því upp í efstu deild á sínu öðru tímabili eftir 16 ár utan deild þeirra bestu.
Nú virðist Bielsa hinsvegar vera kominn á endastöð. Bandaríkjamaðurinn Jesse Marsch hefur verið orðaður við stjórastöðuna hjá Leeds en hann hefur m.a. stýrt Salzburg í Austurríki og Leipzig í Þýskalandi.