Kepa settur inn á fyrir vító en endaði sem skúrkurinn

Leikmenn Liverpool fagna í leikslok.
Leikmenn Liverpool fagna í leikslok. AFP

Liverpool er deildabikarmeistari eftir sigur á Chelsea í vítaspyrnukeppni eftir rosalegan leik. Markalaust var eftir venjulegan leiktíma og eftir framlengingu og því var gripið til vítaspyrnukeppni. Þar skoruðu allir leikmenn vallarins nema varamaðurinn Kepa Arrizabalaga og því var það Liverpool sem fór með sigur af hólmi.

Fyrri hálfleikurinn var mikil skemmtun þrátt fyrir að vera markalaus. Christian Pulisic fékk dauðafæri snemma leiks þegar hann komst einn gegn Caoimhin Kelleher í marki Liverpool. Sá írski sem hefur staðið vaktina í stað Alisson í þessari keppni varði hins vegar frábærlega frá Bandaríkjamanninum. Næst var komið að Sadio Mané að fá dauðafæri. Naby Keita átti þá skot utan teigs sem Edouard Mendy varði beint fyrir fætur Mané í teignum. Mané skaut í fyrstu snertingu af stuttu færi en á einhvern ótrúlegan hátt náði landi hans í markinu að kasta sér fyrir skotið og verja. Fjörið var þó ekki búið enn því í uppbótartíma hálfleiksins fékk Mason Mount dauðafæri. Kai Havertz átti þá frábæra sendingu á hann eftir flotta skyndisókn Chelsea en Mount náði ekki að stýra boltanum á markið. Staðan var því á einhvern óskiljanlegan hátt markalaus í hálfleik á Wembley-vellinum.

Strax í upphafi síðari hálfleiks kom svo enn eitt dauðafærið. Kai Havertz fann þá Mason Mount með glæsilegri sendingu inn fyrir vörnina og sá síðarnefndi var aleinn gegn Kelleher í markinu. Mount ætlaði að leggja boltann þægilega í hornið en því miður fyrir hann fór boltinn í stöngina og út. Á 64. mínútu slapp svo Mohamed Salah einn í gegn eftir slæma spyrnu Edouard Mendy. Salah komst einn gegn Mendy, lyfti boltanum yfir hann en skotið var ekki nægilega fast og Thiago Silva náði að hreinsa boltann af línunni.

Á 67. mínútu héldu Liverpool-menn svo að þeir væru komnir yfir. Joel Matip skallaði boltann þá í netið eftir aukaspyrnu en eftir að hafa skoðað markið í VAR-skjánum komst Stuart Atwell dómari leiksins að þeirri niðurstöðu að Virgil van Dijk hafi verið rangstæður og haft áhrif á leikinn. Markið var þar af leiðandi tekið af og staðan enn markalaus. Eftir þetta var Liverpool sterkari aðilinn en bæði leið fengu fín færi. Varamaðurinn Romelu Lukaku fékk gott færi og Virgil van Dijk fékk einnig gott skallafæri eftir hornspyrnu. Allt kom fyrir ekki, hvorugt liðið náði að skora og því var framlengt.

Fyrri hálfleikur framlengingar var bragðdaufari en fyrstu 90 mínúturnar. Fyrir utan mark Romelu Lukaku sem dæmt var af vegna rangstöðu gerðist fátt markvert á þessu fyrra korteri framlengingarinnar. Í seinni hálfleiknum kom svo enn eitt markið sem dæmt var af. Kai Havertz fékk þá boltann í teignum og gerði allt rétt, en var réttilega flaggaður rangstæður. Á lokamínútu framlengingar tók Tomas Tuchel þá ákvörðun að segja varamarkmanninn sinn, Kepa Arrizabalaga inn á fyrir Edouard Mendy sem hafði varið eins og berserkur allan leikinn. Sú ákvörðun átti eftir að reynast dýrkeypt þegar í vítaspyrnukeppnina var komið.

Caoimhin Kelleher, markvörður Liverpool tók gríðarlega öruggt víti í vítaspyrnukeppninni.
Caoimhin Kelleher, markvörður Liverpool tók gríðarlega öruggt víti í vítaspyrnukeppninni. AFP

Allir leikmenn vallarins voru búnir að skora úr sínum vítaspyrnum, Caoimhin Kelleher markvörður Liverpool þar með talinn, þegar komið var að Kepa. Hann stillti boltanum upp og negldi honum himin hátt yfir markið.

Liverpool er því deildabikarmeistari 2022 en þetta er í fyrsta sinn í 10 ár sem liðið vinnur þessa keppni. Er þetta í níunda sinn sem liðið vinnur keppnina sem gerir það að sigursælasta liði sögunnar í enska deildabikarnum.

Kepa setti boltann hátt yfir markið.
Kepa setti boltann hátt yfir markið. AFP
Chelsea 10:11 Liverpool opna loka
121. mín. Leikur hafinn Liverpool spyrnir fyrst!
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert