Jamie Redknapp og Gary Neville, sérfræðingar á Sky Sports tjáðu sig um þá ákvörðun Tomas Tuchel, stjóra Chelsea að setja varamarkmanninn Kepa Arrizabalaga inn á fyrir vítaspyrnukeppnina í úrslitaleik deildabikarsins í dag. Chelsea tapaði vítaspyrnukeppninni fyrir Liverpool en allir leikmenn vallarins, nema Kepa, skoruðu úr vítaspyrnu.
„Ég vona að þetta geri út um þá hugmynd að skipta um markmann fyrir vítaspyrnukeppnir. Mendy er einn besti markmaður heims og það er fáránleg ákvörðun að setja Kepa inn á í hans stað. Ég var ekki hrifinn af hegðun hans í vítakeppninni og svo tekur hann eitt versta víti sem við munum nokkurn tímann sjá,“ sagði Redknapp en Kepa reyndi ýmislegt til að slá leikmenn Liverpool út af laginu. Það gekk þó ekki betur en svo að þeir skoruðu allir.
Gary Neville tók í sama streng:
„Ég er ekki hrifinn af því að skipta um markmann. Þeir eru væntanlega að hugsa um hversu góður vítabani Kepa er en ég skil samt ekkert í þessu. Mendy hefur verið frábær og hann var frábær í leiknum. Hann varði margoft og var heitur og klár í þetta.“