Chelsea og Liverpool mætast í úrslitaleik enska deildabikarsins í knattspyrnu á Wembley-vellinum í Lundúnum í dag.
Athyglisvert er að skoða þessa viðureign í sögulegu samhengi og þá sér í lagi þegar liðin unnu keppnina síðast.
Chelsea vann 2:0 sigur á Tottenham í úrslitaleik keppninnar árið 2015 með mörkum frá John Terry og Diego Costa. Aðeins einn leikmaður Chelsea í þeim leik er í leikmannahópi liðsins í dag - César Azpilicueta, fyrirliði. Spánverjinn Azpilicueta kom til Chelsea frá franska liðinu Marseille fyrir um sjö milljónir punda árið 2012. Fáir gerðu sér líklega grein fyrir á þeim tímapunkti hversu magnaður hann ætti eftir að reynast Chelsea en hann hefur unnið alla bikara sem í boði eru með félaginu.
Árið 2012 mætti Liverpool B-deildar liðinu Cardiff í úrslitaleik keppninnar. Leikurinn fór alla leið í vítaspyrnukeppni þar sem Rauði Herinn reyndist að lokum sterkari, þrátt fyrir að hafa klikkað á fyrstu tveimur spyrnunum.
Í liði Liverpool þá var Jordan nokkur Henderson. Hann er sá eini af leikmönnum Liverpool í leiknum 2012 sem er enn í leikmannahópnum í dag. Hann er einnig, líkt og Azpilicueta, fyrirliði síns liðs. Henderson kom frá Sunderland árið 2011 fyrir tæplega 20 milljónir punda. Hann átti erfitt uppdráttar til að byrja með en vann sig svo inn í liðið og hefur verið algjör lykilmaður í frábæru liði Jürgen Klopp undanfarin ár.
Bæði Henderson og Azpilicueta byrja leikinn í dag, báðir að sjálfsögðu með fyrirliðaband um hendina. Leikurinn hefst klukkan 16:30 og verður í beinni textalýsingu hér á mbl.is en hana má finna hér.