Knattspyrnumaðurinn Gylfi Þór Sigurðsson er laus gegn tryggingu fram til 17. apríl og er frétta að vænta í máli hans eftir páska.
Þetta kom fram í skriflegu svari lögreglunnar í Manchester við fyrirspurn Vísis.is.
Gylfi Þór, sem er 32 ára gamall, var handtekinn í júlí síðasta sumar, grunaður um brot gegn ólögráða einstaklingi.
Gylfi hefur verið laus gegn tryggingu síðan þá en það fyrirkomulag hefur verið framlengt í þrígang yfir íslenska landsliðsmanninum.
Í skriflegu svari lögreglunnar í Manchester kemur meðal annars fram að ekki megi búast við neinum fréttum af máli leikmannsins fyrr en eftir páska.
Gylfi er samningsbundinn Everton í ensku úrvalsdeildinni en samningur hans í Liverpool rennur út í sumar og er talið öruggt að hann muni yfirgefa félagið þegar samningurinn rennur út.
Hann hefur ekkert leikið með enska liðinu á leiktíðinni og þá hefur hann heldur ekki leikið með íslenska landsliðinu frá því í nóvember 2020.