Breski auðjöfurinn Jim Ratcliffe, sem er stærsti einstaki landeigandi á Íslandi, hefur gert formlegt tilboð í enska knattspyrnufélagið Chelsea.
Hann lagði fram 4,25 milljarða punda boð í félagið í dag, samkvæmt Sky Sports. Þrír aðrir aðilar hafa lagt fram tilboð í Chelsea á síðustu vikum.
Roman Abramovich eigandi Chelsea tilkynnti 2. mars, í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu, að félagið væri til sölu. Breska ríkisstjórnin bannaði honum þann 10. mars að eiga félagið þar sem tengsl milli hans og Vladimírs Pútís Rússlandsforseta væru staðfest. Um það leyti sagði Ratcliffe að hann hefði ekki áhuga á Chelsea en staðan hefur breyst.
„Við lögðum fram tilboð í morgun. Við erum einu Bretarnir sem höfum boðið í félagið. Okkar markmið er einfaldlega að reyna að móta gott félag í London. Við erum ekki að þessu til að hagnast því okkar tekjur byggjast á öðru," sagði Ratcliffe við The Times í dag.
„Félagið er alltaf stærra en eigendurnir, sem eru aðeins tímabundnir gæslumenn, og ber ábyrgð gagnvart stuðningsfólki og samfélaginu. Þess vegna erum við tilbúnir til að eyða 1,75 milljörðum punda á ári í tíu ár, sem renna beint til félagsins og uppbyggingar þess. Við munum fjárfesta í Stamford Bridge og gera hann að heimsklassa-leikvangi, sem sæmir Chelsea.
London á að eiga félag sem endurspeglar stærð borgarinnar, og er í sama klassa og Real Madrid, Barcelona og Bayern München. Við viljum að Chelsea verði þannig félag," sagði Ratcliffe ennfremur.
Chelsea vonast eftir því að eigandaskiptin nái að ganga í gegn fyrir lok maímánaðar, enda þótt boð Ratcliffe á síðasta degi gæti seinkað því eitthvað.