Enska knattspyrnufélagið Everton staðfesti í dag að Gylfi Þór Sigurðsson væri laus allra mála frá félaginu, ásamt tveimur öðrum leikmönnum.
Samningur hans við félagið rennur út um komandi mánaðamót og sama er að segja um þá Fabian Delph og Cenk Tosun.
Gylfi hefur ekkert leikið með Everton síðan í lok tímabilsins 2020-21. Hann var handtekinn 16. júlí síðasta sumar vegna meints kynferðisbrots, sem hefur verið í rannsókn frá þeim tíma, en hefur síðan verið laus gegn tryggingu og verður það til 16. júlí í sumar, í það minnsta.
Gylfi var settur út úr leikmannahópi Everton í kjölfarið og lék ekkert með liðinu á nýliðnu tímabili, sem átti að vera hans fimmta með Everton, eftir að hann var keyptur til félagsins fyrir 40 milljónir punda frá Swansea í ágúst 2017.
Gylfi lék 156 mótsleiki fyrir Everton og þar af voru 136 í úrvalsdeildinni þar sem hann skoraði 25 mörk.