Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, er afar hrifinn af Jude Bellingham, unga enska landsliðsmanninum hjá Borussia Dortmund, en segir að það sé aðeins einn galli við þann leikmann.
Hann sé ekki til sölu.
Klopp var spurður um leikmanninn á heimasíðu félagsins. „Hann er ekki til sölu, svo það er fyrsti gallinn við hann. Tja, það er reyndar eini gallinn á þeim leikmanni!" sagði Klopp.
„Ég á ekki von á því að við munum kaupa miðjumann. En maður veit aldrei hvort einhver muni koma til mín og segist vilja fara eitthvert annað. En það hefur enginn gert það. Ef það gerist verðum við að ræða saman aftur," sagði Jürgen Klopp.
Bellingham er nýorðinn 19 ára en er samt búinn að spila 15 A-landsleiki fyrir England og 61 leik með Dortmund í þýsku 1. deildinni frá því hann var keyptur þangað frá Birmingham fyrir tveimur árum.