Koulibaly næstur í röðinni hjá Chelsea

Kalidou Koulibaly er á leið til Chelsea.
Kalidou Koulibaly er á leið til Chelsea. AFP

Senegalski varnarmaðurinn Kalidou Koulibaly hefur bæst í hóp þeirra öflugu knattspyrnumanna sem enska félagið Chelsea virðist vera á góðri leið með að fá í sínar raðir.

BBC segir í kvöld að Chelsea sé í viðræðum við Napoli um kaup á Koulibaly og forráðamenn félagsins séu mjög bjartsýnir á að þær gangi eftir.

Chelsea er einnig í viðræðum við Manchester City um kaup á hollenska miðverðinum Nathan Ake og enska kantmanninum Raheem Sterling. Mál Sterlings er talið vera á lokastigi, hann hafi þegar samið við Chelsea til fimm ára og eigi aðeins eftir að ljúka læknisskoðuninni.

Koulibaly hefur þótt einn öflugasti miðvörðurinn í evrópska fótboltanum undanfarin ár en hann er 31 árs og hefur leikið með Napoli í átta ár. Hann á 317 mótsleiki að baki fyrir félagið en hann er jafnframt landsliðsfyrirliði Senegala.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert