Nottingham Forest, nýliðar í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla, halda áfram að sanka að sér leikmönnum og það þrátt fyrir að félagaskiptaglugginn sé lokaður.
Í gær tilkynnti félagið að það hafi samið við bosníska markvörðinn Adnan Kanuric.
Var því kleift að semja við leikmann utan félagaskiptagluggans þar sem hann var samningslaus eftir að hafa yfirgefið bosníska félagið Sarajevo í sumar.
Hinn 22 ára gamli Kanuric er fæddur í Austurríki en hefur leikið fyrir öll yngri landslið Bosníu og Hersegóvínu.
Undanfarnar vikur hefur hann staðið sig vel á reynslu með Forest og var því boðinn samningur. Kanuric verður, að minnsta kosti fyrst um sinn, hugsaður sem markvörður U21-árs liðs félagsins.
Kanuric er þar með 23. leikmaðurinn sem Forest semur við í sumar og haust. 21 leikmaður gekk til liðs við félagið fyrir gluggalok og Serge Aurier, sem einnig var samningslaus eftir stutta dvöl hjá Villarreal, og Kanuric bættust svo við í mánuðinum.