Íslenskir stuðningsmenn Everton hlutu höfðinglegar móttökur

Íslensku stuðningsmennirnir ásamt Nathan Patterson, fyrir miðju, í morgun.
Íslensku stuðningsmennirnir ásamt Nathan Patterson, fyrir miðju, í morgun. Ljósmynd/Everton

Hópur íslenskra stuðningsmanna enska knattspyrnufélagsins Everton hlaut höfðinglegar móttökur hjá félaginu þegar íslenska flugfélagið Play flaug jómfrúarferð sína frá Keflavík til Liverpool í morgun.

Skoski landsliðsmaðurinn Nathan Patterson, fastamaður í liði Everton, var mættur á John Lennon-flugvöllinn í Bítlaborginni til þess að taka á móti hópi íslenskra og annarra norrænna stuðningsmanna liðsins.

Í tilkynningu frá Everton segir að stuðningsmennirnir hafi verið himinlifandi með að hitta Patterson, sem hafði spilað hverja einustu mínútu með liðinu í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu áður en hann meiddist í landsleikjahléinu í síðasta mánuði.

Tók hann hlýlega á móti þeim með Everton-treflum og handabandi. Tilefni ferðarinnar er nágrannaslagur Everton gegn Manchester United í Liverpool-borg, sem fer fram á sunnudag.

Patterson var sjálfur ánægður með að hitta íslensku stuðningsmennina.

„Það var sönn ánægja að hitta íslensku stuðningsmennina. Ástríða allra stuðningsmanna okkar kemur mér sífellt á óvart og sem lið dáumst við að ótrúlegum stuðningi þeirra.

Það fyllir mann auðmýkt að hugsa til þess að stuðningsmenn ferðist um þetta langan veg til þess að fylgja liðinu þannig að það var ánægjulegt að geta látið þá vita hversu þakklátir við erum fyrir það,“ sagði hann í tilkynningunni.

Talsmaður John Lennon-flugvallar bætti við: „Við erum Nathan mjög þakklátir fyrir að hafa gert sér ferð í morgun.

Íslensku stuðningsmennirnir voru algjörlega himinlifandi með að hitta Nathan og móttökurnar sem þeir hlutu.“

Leikur Everton og Manchester United verður sýndur í beinni útsendingu á Símanum Sport á sunnudagskvöld og hefst hann klukkan 18.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert