Arsenal sigraði Liverpool 3:2 í stórleik ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu á Emirates-leikvanginum í London í dag.
Gabriel Martinelli skoraði fyrsta mark Arsenal og Bukayo Saka skoraði bæði annað og þriðja markið, sem reyndist vera sigurmark leiksins. Liverpool jafnaði metin í tvígang með mörkum frá Darwin Nunez og Roberto Firmino en lengra komst liðið ekki.
Arsenal er á toppi ensku úrvalsdeildarinnar með 24 stig en Liverpool í tíunda sæti með 10 stig en á reyndar leik til góða á efstu liðin. Liverpool mætir Manchester City á Anfield eftir viku á meðan Arsenal heimsækir Leeds.
Það er óhætt að segja að Arsenal hafi byrjað betur í leiknum en heimamenn komust yfir eftir 58 sekúndna leik þegar Bukayo Saka bar boltann upp í skyndisókn og lagði hann á Martin Ødegaard. Ødegaard stakk boltanum inn fyrir á Gabriel Martinelli sem renndi honum undir Alisson í marki Liverpool, 1:0.
Liverpool jafnaði metin á 34. mínútu en þá setti Darwin Nunez boltann í netið af stuttu færi. Trent Alexander-Arnold átti skemmtilega háa sendingu inn fyrir vörn Arsenal á Luis Diaz sem sendi fastan bolta með jörðinni inn í teiginn og Darwin Nunez var réttur maður á réttum stað og potaði boltanum fram hjá Ramsdale og í nærhornið, 1:1.
Í viðbótartíma í fyrri hálfleik átti Arsenal frábæra skyndisókn sem endaði með því að Gabriel Martinelli fór framhjá varnarmönnum Liverpool og lagði boltann inn í markteiginn á Bukayo Saka, sem átti ekki í vandræðum með að stýra boltanum í netið á fjærstönginni af stuttu færi, 2:1 og þannig stóðu leikar í leikhléi.
Roberto Firmino kom inn á sem varamaður fyrir Luis Diaz undir lok fyrri hálfleiks og hann jafnaði metin á 53. mínútu úr góðri sókn, þar sem margir tóku þátt í uppbyggingunni, sókninni lauk með lúmskri stungusendingu frá Diogo Jota inn á Roberto Firmino, sem bara getur ekki hætt að skora. Brasilíumaurinn lagði boltann snyrtilega í fjærhornið fram hjá Aaron Ramsdale í marki Arsenal, 2:2.
Það var svo á 76. mínútu sem heimamenn skoruðu sigurmark leiksins. Gabriel Jesus er tekinn niður í teignum en Thiago, miðjumaður gestanna, virtist hafa sparkað í hann þegar hann var í skotinu. Bukayo Saka fór á punktinn. Alisson fór í rétt horn en skotið var utarlega og nokkuð fast, 3:2.
Liðsmenn Liverpool reyndu hvað þeir gátu til að jafna leikinn en vörn Arsenal hélt og niðurstaðan góður heimasigur sem verður að teljast nokkuð sanngjarn. Liverpool var meira með boltann en Arsenal var hættulegri aðilinn og skapaði sér fleiri færi.