Manchester United heimsótti Everton í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld en leik lauk fyrir skömmu. Fyrir daginn var Manchester United í sjöunda sæti með tólf stig og Everton í því ellefta með tíu.
Svo fór að lokum að United sigraði 2:1 á Goodison Park með mörkum frá Antony og Cristiano Ronaldo en það var Alex Iwobi sem skoraði mark heimamanna.
Manchester United situr eftir leikinn í fimmta sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 15 stig, einu stigi á eftir Chelsea en bæði lið eiga leik til góða á efstu liðin. Everton situr í 10.-13. sæti ásamt m.a. grönnum sínum í Liverpool en síðarnefnda liðið á einn leik til góða. Manchester United heimsækir United frá Newcastle um næstu helgi á meðan Everton heimsækir Tottenham.
Heimamenn í Everton skoruðu fyrsta mark leiksins strax á 5. mínútu þegar Casemiro lét hirða af sér boltann á miðsvæðinu. Demarai Gray lagði boltann á Iwobi sem snéri hann glæsilega, utan vítateigs, upp í fjærhornið, 1:0.
Með markinu má segja að Everton hafi hætt að spila fyrri hálfleikinn og United tók leikinn algjörlega yfir. Á 15. mínútu missti Idrissa Gueye boltann á vondum stað og United geystist upp völlinn. Anthony Martial lagði boltann út til hægri á Brasilíumanninn Antony sem skoraði í fjærhornið framhjá Pickford í marki Everton, 1:1.
Yfirburðir Manchester United héldu áfram en það var ekki fyrr en undir lok fyrri hálfleiks sem Portúgalinn, Cristiano Ronaldo, kom gestunum yfir. Casemiro vann boltann af Alex Iwobi og stakk honum fram á Ronaldo á vinstri vængnum, sem skoraði með góðu skoti undir Pickford og í nærhornið, 1:2. Þannig stóðu leikar í leikhléi. Fyllilega sanngjörn hálfleiksstaða á Goodison Park.
Seinni hálfleikur var fremur tíðindalítill þó liðsmenn United hafi haft talsverða yfirburði framan af hálfleiknum. Á 80. mínútu skoraði Marcus Rashford mark eftir leið 1 frá marki gestanna en mynbandsdómgæsla úrskurðaði að boltinn hefði haft viðkomu í hönd Englendingsins í aðdraganda marksins og því fékk það ekki að standa.
Everton átti ágætis seinni hluta seinni hálfleiks og gerðu liðsmenn Bítlaborgarliðsins harða hríð að marki gestanna undir lok leiks þar sem m.a. Jordan Pickford markvörður liðsins gerði sig líklegan.
United hélt út og náði góðum og sanngjörnum sigri, lokatölur 1:2 á Goodison Park.