Handtekinn og ákærður

Mason Greenwood var handtekinn í dag.
Mason Greenwood var handtekinn í dag. AFP/Paul Ellis

Mason Greenwood, leikmaður enska knattspyrnufélagsins Manchester United, var handtekinn í dag og ákærður fyrir brot gegn fyrrverandi kærustu sinni.

Það er BBC sem greinir frá þessu en Greenwood, sem er 21 árs gamall, var handtekinn í janúar á þessu ári vegna gruns um nauðgun, heimilisofbeldi, líkamsárás og líflátshótanir í garð Harriet Robson.

Greenwood var látinn laus gegn tryggingu í byrjun febrúarmánaðar en var handtekinn á nýjan leik í dag fyrir að brjóta skilorð með því að hafa samband við fyrrverandi kærustu sína.

Leikmaðurinn þarf að mæta fyrir dómara á mánudaginn kemur en Manchester United setti leikmanninn í ótímabundið bann þegar hann var handtekinn í janúar og hefur hann hvorki æft né spilað með liðinu.

Greenwood er uppalinn hjá United og á að baki 129 leiki fyrir félagið í öllum keppnum þar sem hann hefur skorað 35 mörk og lagt upp önnur tólf. Þá á hann að baki einn A-landsleik fyrir England.

Verði Greenwood fundinn sekur gæti hann átt yfir höfði sér langa fangelsisvist.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka