Óvíst með Henderson en Thiago er leikfær

Jordan Henderson og Thiago Alcantara fagna marki Liverpool í 1:0 …
Jordan Henderson og Thiago Alcantara fagna marki Liverpool í 1:0 sigri liðsins á Manchester City í ensku úrvalsdeildinni um miðjan mánuðinn. AFP/Oli Scarff

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri enska úrvalsdeildarfélagsins Liverpool, ræddi stöðu leikmannahópsins á fréttamannafundi fyrir leik liðsins gegn Leeds á Anfield annað kvöld.

Þjóðverjinn sagði að Thiago Alcantara, sem hefur misst af tveimur síðustu leikjum liðsins vegna eyrnabólgu, væri kominn til baka en bíða þyrfti með ákvörðun um Jordan Henderson.

„Henderson fékk högg og er stífur, við sjáum til. Thiago er kominn til baka.“  

Um leikinn sjálfan og framhaldið sagði Klopp að liðið eigi nokkra erfiða leiki fram að HM-pásunni.

„Okkar staða er ljós en hægt er að horfa á hana frá mismunandi sjónarhornum. Það getur margt gerst á einni nóttu.“

Liverpool er í áttunda sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 16 stig að loknum 11 leikjum. Leeds er í átjánda sæti með 9 stig en á leik til góða á bæði Wolves og Nottingham Forest, sem verma tvö neðstu sætin.

Flautað verður til leiks Liverpool og Leeds á Anfield klukkan 18.45 annað kvöld. Fylgst verður með gangi mála í beinni textalýsingu hér á mbl.is.

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri enska úrvalsdeildarfélagsins Liverpool.
Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri enska úrvalsdeildarfélagsins Liverpool. AFP/John Thys
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert