Jones nýr knattspyrnustjóri Dýrlinganna

Nathan Jones er tekinn við Southampton.
Nathan Jones er tekinn við Southampton. Ljósmynd/Luton Town

Enska úrvalsdeildarfélagið Southampton hefur tilkynnt að Nathan Jones hafi verið ráðinn nýr knattspyrnustjóri karlaliðsins eftir að Ralph Hasenhüttl var látinn taka pokann sinn í byrjun vikunnar.

Jones hefur stýrt Luton Town frá árinu 2016, með örlitlu hléi er hann tók við Stoke City árið 2019, og það með eftirtektarverðum árangri þar sem hann stýrði liðinu upp úr ensku D-deildinni í B-deildina.

Á síðasta tímabili komst Luton í umspil um laust sæti í ensku úrvalsdeildinni.

Jones skrifaði undir þriggja og hálfs árs samning við Southampton og kvaðst stoltur af því að fá tækifæri til þess að stýra Dýrlingunum.

Southampton er sem stendur í 18. sæti, fallsæti, og mætir Liverpool á Anfield á laugardag í ensku úrvalsdeildinni í fyrsta leik Jones við stjórnvölinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert