Ivan Toney, framherji Brentford, var borinn af velli er liðið vann 2:0-útisigur á West Ham í gærkvöldi.
Toney er í þriðja sæti yfir markahæstu menn ensku úrvalsdeildarinnar á leiktíðinni og er því um mikið áfall að ræða fyrir Brentford ef meiðslin eru alvarleg.
„Ég veit ekki mikið um meiðslin og það er óvenjulegt af Ivan að vera borinn af velli. Auðvitað erum við áhyggjufullir og við sjáum hvernig þetta þróast næstu daga,“ sagði Thomas Frank, knattspyrnustjóri Brentford við Talksport eftir leik.
Toney skoraði fyrra mark Brentford í gær og lagði upp seinna markið á Joshua Dasilva.