„Hæ Eiður, þetta er Gianluca Vialli ég vildi ræða við þig um að koma til Chelsea í sumar... ég er viss um að þú sért tilbúinn að taka spilamennskuna þína upp á hærra plan og ég vonast til þess að sjá þig í blárri treyju á næsta tímabili.“
Hér vitnar Eiður Smári Guðjohnsen, fyrrverandi leikmaður Chelsea og íslenska landsliðsins í knattspyrnu, í Gianluca Vialli, sem var goðsögn í Chelsea og lést í dag úr krabbameini, í færslu sem Eiður birti á Instagram-síðunni sinn í kvöld.
„Það er skemmst frá því að segja að þú náðir mér með „Hæ Eiður, þetta er Gianluca Vialli.“ Ég er bæði þakklátur og blessaður. Það var sannur heiður að hafa fengið að finna fyrir nærveru þinni bæði innan og utan vallar,“ segir enn fremur í færslu Eiðs.
Eiður Smári kom frá Bolton til Chelsea um sumarið árið 2000 en þá var Gianluca Vialli knattspyrnustjóri Chelsea. Samstarf þeirra félaga varði þó ekki lengi því Vialli var rekinn frá Chelsea eftir einungis fimm leiki á tímabilinu 2000-2001 vegna ósættis við nokkra leikmenn.