Enska knattspyrnufélagið Brighton & Hove Albion hefur fest kaup á sænska miðjumanninum Yasin Ayari fyrir 3,5 milljónir punda. Ayari kemur frá uppeldisfélagi sínu AIK í heimalandinu.
Skrifaði hann undir samning sem gildir til sumarsins 2027.
Ayari er 19 ára gamall en var í stóru hlutverki hjá AIK á síðasta tímabili þar sem hann skoraði fjögur mörk í 24 leikjum í sænsku úrvalsdeildinni. Lék hann sinn fyrsta keppnisleik fyrir liðið 17 ára gamall.
Ayari, sem er fæddur í Solna í Stokkhólmi, lék á dögunum sína fyrstu A-landsleiki fyrir Svíþjóð, vináttuleiki gegn Finnlandi og Íslandi, en getur enn valið að spila fyrir Túnis eða Marokkó, þaðan sem foreldrar hans eru.
Yngri bróðir Yasin, Taha, er einnig á mála hjá AIK og er sömuleiðis efnilegur miðjumaður. Er hann 17 ára gamall.