Nottingham Forest vann 1:0-heimasigur á Leeds í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag. Brennan Johnson skoraði sigurmarkið á 14. mínútu með glæsilegu skoti eftir aukaspyrnu.
Eftir markið voru yfirburðir Leeds töluverðir en Keylor Navas í marki Forest stóð vaktina gríðarlega vel í sínum fyrsta leik og varði nokkrum sinnum glæsilega.
Betur gekk hjá Forest að verjast í seinni hálfleik og Leeds skapaði sér lítið af færum. Hinum megin reyndu heimamenn lítið að bæta við forskotið og eins marks sigur var því staðreynd.
Forest hefur leikið fimm leiki í röð án þess að tapa og er liðið í 13. sæti með 24 stig. Leeds er í 17. sæti með 18 stig og aðeins fyrir ofan fallsæti á markatölu.