Liverpool hefur gengið bölvanlega í ensku úrvalsdeildinni eftir að HM í Katar í knattspyrnu lauk skömmu fyrir jól.
Útlitið var að vísu prýðilegt strax eftir jól þegar Liverpool hafði betur gegn Aston Villa og Leicester City en á nýju ári hefur liðið steinlegið fyrir Brentford, Brighton & Hove Albion og Wolverhampton Wanderers, ásamt því að gera markalaust jafntefli við Chelsea.
Í þessum sex leikjum hefur liðið því unnið tvo, gert eitt jafntefli og tapað þremur og aðeins skorað sex mörk.
Mohamed Salah, Stefan Bajcetic, Virgil van Dijk og Alex Oxlade-Chamberlain hafa allir skorað eitt mark í leikjunum sex en markahæstur er Wout Faes, varnarmaður Leicester, sem skoraði tvö sjálfsmörk í 2:1-sigri Liverpool þann 30. desember.