Enska knattspyrnufélagið Leeds United hefur rekið Bandaríkjamanninn Jesse Marsch úr starfi knattspyrnustjóra eftir tæplega eins árs starf.
Marsch tók við starfinu af Argentínumanninum Marcelo Bielsa í lok febrúar á síðasta ári og tókst að bjarga liðinu frá falli úr ensku úrvalsdeildinni um vorið.
Á yfirstandandi tímabili hefur Leeds verið í áframhaldandi vandræðum, og það þrátt fyrir að styrkja sig með nokkrum öflugum leikmönnum í sumar og janúar, þar sem liðið er í 17. sæti með 18 stig, jafnmörg og Everton í fallsæti fyrir neðan.
Leeds vann síðast leik í deildinni í byrjun nóvember, 4:3 á heimavelli gegn nýliðum Bournemouth.
Steininn tók úr í gær þegar nýliðar Nottingham Forest unnu 1:0-sigur. Leeds hefur nú ekki unnið sigur í sjö deildarleikjum í röð.
#LUFC can confirm head coach Jesse Marsch has been relieved of his duties
— Leeds United (@LUFC) February 6, 2023