Knattspyrnustjórinn José Mourinho er sagður opinn fyrir því að taka við enska úrvalsdeildarfélaginu Chelsea á nýjan leik.
Það er Give Me Sport sem greinir frá þessu en Mourinho, sem er sextugur, stýrir í dag Roma í ítölsku A-deildinni.
Portúgalinn stýrði Chelsea fyrst frá 2004 til ársins 2007 og undir hans varð Chelsea Englandsmeistari í tvígang og einu sinni bikarmeistari.
Hann snéri svo aftur til félagsins árið 2013 og stýrði liðinu í tvö tímabil, til 2015. Liðið varð Englandsmeistari undir hans stjórn árið 2015.
Mourinho þekkir vel til á Englandi en hann hefur einnig stýrt Tottenham og Manchester United á þjálfaraferlinum.
Graham Potter stýrir Chelsea í dag en gengi liðsins, frá því Potter tók við stjórnartaumunum í september 2022, hefur verið langt undir væntingum.