Íþróttavöruframleiðandinn Nike hefur sent frá sér yfirlýsingu eftir að knattspyrnumaðurinn Mason Greenwood uppfærði Instagram-síðu sína á dögunum.
Greenwood, sem er 21 árs gamall, þarf ekki að mæta fyrir dómara í nóvember á þessu ári eins og til stóð eftir að hann var ákærður fyrir líkamsárás, tilraun til nauðgunar og líflátshótanir í garð fyrrverandi kærustu sinnar.
Málið var látið niður falla, meðal annars vegna þess, að lykilvitni ákváðu að draga framburð sinn til baka.
Greenwood uppfærði Instagram-síðu sína eins og áður sagði, eftir að málið var fellt niður, og þar sagðist hann vera bæði leikmaður Manchester United og á styrktarsamning hjá Nike.
„Mason Greenwood er ekki íþróttamaður hjá Nike,“ sagði meðal annars í tilkynningu íþróttavöruframleiðandans en framtíð leikmannsins hjá United er í mikilli óvissu.