Danny Murphy, fyrrverandi leikmaður enska knattspyrnufélagsins Liverpool, skaut föstum skotum að Jürgen Klopp stjóra liðsins á dögunum.
Liverpool hefur gengið skelfilega á tímabilinu en liðið er sem stendur í tíunda sæti deildarinnar með 29 stig, 11 stigum frá Meistaradeildarsæti.
Murphy lék 249 leiki fyrir Liverpool á árunum 1997 til 2004 en hann starfar í dag sem sparkspekingur hjá breska ríkissjónvarpinu.
„Liðsuppstilling Liverpool kemur mér alltaf jafn mikið á óvart,“ sagði Murphy í samtali við talkSport þegar hann ræddi gengi Liverpool á tímabilinu.
„Ég horfi ekki á æfingar hjá liðinu en það skiptir ekki máli, Jordan Henderson á að byrja alla leiki liðsins að mínu mati. Hann er hjartað í liðinu og á miðsvæðinu sérstaklega.
Hann er enn þá með fæturna til þess að hlaupa en af einhverjum ástæðum geymir Klopp hann á bekknum. Klopp gerir sömu mistökin aftur og aftur.
Ég veit að Fabinho er ekki að eiga gott tímabil en hann og Henderson eru leikmenn sem hafa verið í heimsklassa undanfarin tímabil. Þeir þurfa að fá spiltíma til að komast upp úr lægðinni sem þeir eru í,“ sagði Murphy.