Christian Atsu, fyrrverandi leikmaður ensku knattspyrnuliðanna Newcastle, Everton og Chelsea og núverandi leikmaður Hatayspor í Tyrklandi, er enn ófundinn í rústum byggingar sem hrundi þegar jarðskjálftar riðu yfir Tyrkland og Sýrland í byrjun vikunnar.
Mustafa Özat, varaforseti Hatayspor, sagði við Radyo Gol í gær að Atsu hafi fundist á lífi í rústunum, en læknir félagsins segir hann ekki hafa farið með rétt mál.
„Okkur var sagt að Atsu væri á Dortyol-spítalanum. Við fórum þangað að leita en fundum hann hvergi. Við verðum að sætta okkur við að fréttirnar um að hann hafi verið fundinn séu rangar,“ sagði Gurbey Kahveci, læknir Hatayspor, við Hurriyet Turkey í dag.
Atsu gekk ungur að árum til liðs við Chelsea og var lánaður til Everton tímabilið 2014-2015 og til Newcastle tímabilið 2016-2017. Hjálpaði hann Newcastle að komast upp í ensku úrvalsdeildina eftir eitt tímabil í B-deildinni og spilaði síðan með félaginu áfram til ársins 2021 þegar hann fór til Sádi-Arabíu, og þaðan til Tyrklands síðasta sumar. Atsu hefur leikið 65 landsleiki fyrir Gana.