Stjórnarformaður enska félagsins Leeds United segir að það þurfi meiri tíma til að finna nýjan knattspyrnustjóra í staðinn fyrir Jesse Marsch sem var sagt upp störfum á mánudaginn.
Andrea Radrizzani stjórnarformaður sagði á mánudag þegar hann svaraði stuðningsfólki á Twitter að nýr stjóri yrði væntanlega ráðinn strax um kvöldið eða morguninn eftir en síðan hefur ekkert gerst.
Nú hefur Radrizzani svarað svipuðum spurningum á þá leið að félagið þurfi meiri tíma. „Styðjum strákana, held ykkur upplýstum,“ sagði hann um hádegið í dag.
Andoni Iraola, yfirþjálfari Rayo Vallecano á Spáni og Arne Slot hjá Feyenoord þykja nú einna líklegastir til að fá starfið. Carlos Corberan var sterklega orðaður við Leeds en hann skrifaði í gærkvöld undir nýjan samning við West Bromwich Albion.
Victor Orta, yfirmaður knattspyrnumála hjá Leeds, er sagður hafa flogið til Madríd í gær til að ræða við Iraola, sem er samningsbuninn út þetta tímabil hjá Rayo Vallecano.
Michael Skubala stýrir Leeds gegn Manchester United á Old Trafford í kvöld en hann þjálfar 21-árs lið félagsins.
Leeds er í 17. sæti deildarinnar, aðeins markatölunni fyrir ofan fallsæti, og Marsch var sagt upp störfum eftir að lið hans hafði aðeins unnið fjóra af fyrstu 20 leikjum sínum í úrvalsdeildinni á þessu tímabili.