Allir þegar búnir að dæma okkur

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City.
Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City. AFP/Oli Scarff

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, segir að öll hin 19 liðin í ensku úrvalsdeildinni hafi þegar ákveðið að félagið sé sekt um þau fjölmörgu fjárhagsbrot sem deildin hefur kært það fyrir.

Brotin snúa allflest að fjárhagsstöðu Man. City þar sem félaginu er gefið að sök að hafa ýkt tekjur sínar, sér í lagi frá styrktaraðilum, í bókhaldi þess mörg undanfarin ár.

Einnig snúa þau að tengdum aðilum, til að mynda fyrirtækjum sem virðast nátengd eigendum Man. City frá Abú Dabí, og rekstrakostnaði.

Þá er félagið sakað um að hafa verið ósamvinnuþýtt við rannsókn deildarinnar.

Guardiola sat fyrir svörum á blaðamannafundi í dag og byrjaði á því að rifja upp þegar knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, úrskurðaði Man. City í tveggja ára keppnisbann og dæmdi félagið til að greiða 30 milljónir evra í sekt.

Sama og gerðist með UEFA

„Félagið sýndi fram á að það væri með öllu saklaust,“ sagði Guardiola.

Það er þó ekki alls kostar rétt. Man. City áfrýjaði dómi UEFA til Alþjóðaíþróttadómstólsins, CAS, sem felldi tveggja ára bannið úr gildi og lækkaði sektina niður í 10 milljónir evra.

CAS komst að þeirri niðurstöðu að ekki hafi verið hægt að sýna fram á að flest meint brot sem rannsókn UEFA tók til hafi verið framin og að flest brotanna sem hægt væri að sýna fram á að hafi verið framin væru fyrnd og gæti sambandið því ekki refsað félaginu fyrir þau.

„Það sem hefur gerst síðan á mánudag er það sama og gerðist með UEFA. Það er þegar búið að fordæma okkur.

Þið verðið að skilja að 19 félög í úrvalsdeildinni eru að ásaka okkur án þess að við getum borið hönd fyrir höfuð okkar,“ hélt hann áfram og virtist töluvert niðri fyrir.

„Við erum lánsöm að búa í landi þar sem allir eru saklausir uns sekt er sönnuð.

Við fengum ekki þetta tækifæri, það er þegar búið að dæma okkur. Ég er þess fullviss um að sakleysi okkar verði sannað,“ sagði Guardiola einnig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert