Arsenal missteig sig í baráttunni um enska meistaratitilinn í dag er liðið fékk Brentford í heimsókn á Emirates-leikvanginn en leiknum lauk með jafntefli, 1:1.
Fyrri hálfleikur var má segja í járnum en það voru þó gestirnir í Brentford sem fengu bestu færin. Rico Henry fékk mjög gott færi snemma leiks og Ivan Toney átti skot í slána, alveg út við stöng, á 25. mínútu. Arsenal fékk sín færi en ekkert sem er þörf á að tíunda hér. Markalaust var í leikhléi.
Seinni hálfleikur var tíðindalítill framan af. Mikel Arteta skipti Leandro Trossard inn á fyrir Gabriel Martinelli á 62. mínútu og Belginn þakkaði traustið fjórum mínútum síðar þegar hann setti boltann í netið af stuttu færi eftir fallega sókn og stoðsendingu Bukayo Saka, 1:0.
Arsenal hélt forystunni í átta mínútur en Ivan Toney jafnaði metin eftir klafs í teignum og stoðsendingu Christian Nørgaard, 1:1.
Lokamínúturnar voru ansi fjörugar en inn vildi boltinn ekki og liðin sættust á skiptan hlut. Líklega eru það heimamenn í Arsenal sem eru ósáttari aðilinn með þá niðurstöðu. Lokatölur 1:1.
Arsenal er með sex stiga forskot á Manchester City á toppi deildarinnar en Brentford í því áttunda, einu stigi á eftir Brighton en liðið á einn leik til góða.