Hann getur gert gæfumuninn

Joao Felix hefur setið af sér leikbann og er klár …
Joao Felix hefur setið af sér leikbann og er klár í slaginn á ný. AFP/Ben Stansall

„Það er frábært. Við sáum hvaða áhrif hann hafði á þeim 60 mínútum sem hans naut við áður en hann fékk rauða spjaldið.“

Þetta sagði Graham Potter, knattspyrnustjóri enska úrvalsdeildarfélagsins Chelsea, um það að sóknarmaðurinn Joao Felix hafi setið af sér leikbann og sé klár í slaginn á ný.

„Við sjáum gæði hans alla daga og hann er svo sannarlega leikmaður sem getur gert gæfumuninn hjá okkur.“

Felix fékk þriggja leikja bann fyrir beint rautt spjald í sínum fyrsta leik fyrir Chelsea gegn Fulham eftir að hafa komið sem lánsmaður frá Atletico Madrid.

Að Felix sé klár í slaginn á ný gefur Potter og hans mönnum byr undir báða vængi eftir markalaus jafntefli gegn Liverpool og Fulham.

„Þetta er Lundúna-slagur og það er engin ást á milli liðanna svo þetta verður góður prófsteinn á okkar lið.

Þetta eru alltaf erfiðir leikir og lið sem Moyes stýrir gefur þér alltaf leik. Lið hans weru skipulögð og eru sterk í föstum leikatriðum.

Við þurfum að átta okkur á því að þetta er grannaslagur og við þurfum að mæta þeim í baráttunni.“

Leikur West Ham og Chelsea í ensku úrvalsdeildinni á Lundúnaleikvanginum hefst klukkan 12:30.

Graham Potter.
Graham Potter. AFP/Ben Stansall
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert