„Við höfum enn að miklu að keppa. Mér finnst við sýna merki um að leikur okkar sé að batna á sumum sviðum en góð lið eins og Chelsea munu láta okkur þurfa að hafa fyrir hlutunum.“
Þetta sagði David Moyes, knattspyrnustjóri enska úrvalsdeildarfélagsins West Ham, í aðdraganda heimsóknar Chelsea á Lundúnaleikvanginn.
West Ham hefur verið í blóðugri botnbaráttu lungann af tímabilinu og er liðið sem stendur í 17. sæti deildarinnar, einu stigi frá fallsæti.
Eftir að hafa aðeins náð í eitt stig í síðustu sjö leikjum hefur liðið rétt aðeins úr kútnum en West Ham vann góðan heimasigur á Everton í janúar og sótti stig á St. James' Park í Newcastle í síðustu umferð.
„Það eru mikilvægir leikir framundan. Sambandsdeild Evrópu hefst aftur í mars og við erum enn í ensku bikarkeppninni.
Við viljum vera í eins mörgum keppnum og mögulegt er en nú er öll einbeiting okkar á Chelsea.“