Lundúnaliðin West Ham og Chelsea skildu jöfn í hádegisleik ensku úrvalsdeildarinnar, 1:1.
Chelsea byrjaði leikinn betur en Joao Felix skoraði mark sem dæmt var réttilega af vegna rangstöðu áður en hann skoraði mark sem fékk að standa á 18. mínútu eftir undirbúning Enzo Fernández.
Kai Havertz skoraði fyrir Chelsea á 22. mínútu en hann var einnig dæmdur rangstæður svo markið fékk ekki að standa.
Á 28. mínútu jafnaði West Ham metin þegar Emerson skoraði eftir undirbúning Jarrod Bowen.
Staðan var 1:1 þegar Craig Pawson flautaði fyrri hálfleikinn af.
Lítið markvert gerðist framan af í seinni hálfleik þar til varamaðurinn Tomas Soucek skoraði mark sem var síðan dæmt af með myndbandsdómgæslu.
Lokatölur á Lundúnaleikvanginum, 1:1.