Dómarasambandið biður Arsenal afsökunar

Jöfnunarmark Ivan Toney, sem hann fagnar hér, átti ekki að …
Jöfnunarmark Ivan Toney, sem hann fagnar hér, átti ekki að standa. AFP/Justin Tallis

Enska dómarasambandið, PGMOL, er búið að biðja knattspyrnufélögin Arsenal og Brighton afsökunar á „verulegum villum í VAR-kerfinu.“

Dómarasambandið bað Brighton afsökunar á því að hafa gert mistök með því að dæma mark Pervis Estupinán af vegna rangstöðu í fyrri hálfleiknum gegn Crystal Palace í gær. Rangstöðulínurnar voru hins vegar dregnar rangt af myndbandsdómgæslunni og því átti markið að standa. 

Lee Mason, sem var myndbandsdómari í leik Arsenal og Brentford, gleymdi að beita línunum sem höfðu sýnt að Daninn Christian Nörgaard var rangstæður í jöfnunarmarki Ivan Toney fyrir Brentford en Nörgaard gaf boltann á Toney. 

Howard Webb, yfirdómari dómarasambandsins, hafði samband við bæði félög til þess að viðurkenna og útskýra mikilvægar villur í myndbandsdómgæslunni. 

„Bæði atvikin urðu vegna mannlegra mistaka og tengdust greiningu á rangstöðum. Þau eru í ítarlegri endurskoðun hjá dómarasambandinu,“ segir í tilkynningu frá PGMOL.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert