„Við erum allavega enn þá að tala um einhver vafaatriði í fótboltanum sem er gott,“ sagði Margrét Lára Viðarsdóttir í Vellinum á Símanum Sport þegar rætt var um leik Arsenal og Brentford í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu.
Ivan Toney skoraði jöfnunarmark Brentford í leik liðsins gegn Arsenal en leiknum lauk með 1:1-jafntefli.
Markið átti hins vegar aldrei að standa þar sem Christian Nörgaard, leikmaður Brentford, var rangstæður áður en hann sendi boltann fyrir markið á Toney.
Lee Mason, sem var VAR-dómari í leiknum, gleymdi hins vegar að nota rangstöðulínurnar þegar hann horfði aftur á atvikið en enska dómarasambandið baðst í dag afsökunar á atvikinu.
„Ég er sammála því að þetta mark átti ekki að standa. Þetta er rangstæða. Varnarvinna miðvarða Arsenal er ófyrirgefanleg þegar Pinnock skallar boltann á Nörgaard,“ sagði Gylfi Einarsson meðal annars.