Tekinn af tveimur stórleikjum eftir mistök

Howard Webb, formaður atvinnudómarasamtaka Englands, hefur ákveðið að setja John …
Howard Webb, formaður atvinnudómarasamtaka Englands, hefur ákveðið að setja John Brooks af í tveimur leikjum. AFP

John Brooks, sem sá um VAR-dómgæslu í leik Crystal Palace og Brighton & Hove Albion í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu um liðna helgi, hefur verið settur af sem VAR-dómari í leik Liverpool og Everton í kvöld og Arsenal og Manchester City á miðvikudagskvöld.

Þetta tilkynntu samtök atvinnudómara, PGMOL, í dag. Þar er fyrrverandi dómarinn Howard Webb í forsvari.

Ástæðan fyrir því eru afdrifarík mistök sem hann gerði í leik Palace og Brighton þar sem hann dæmdi mark Pervis Estupinán ranglega af vegna rangstöðu, með því að teikna rangstöðulínu á röngum stað.

Andre Marriner mun sinna VAR-dómgæslu í leik kvöldsins, nágrannaslag Liverpool og Everton, og David Coote mun sinna slíkri dómgæslu í leik Arsenal og Man. City á miðvikudag í stað Brooks.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert